Innlent

Vilja sömu laun og aðrir sauðfjárbændur

Sveinn Arnarsson skrifar
Tekist á um fé.
Tekist á um fé. vísir/gva
Kaupfélag Skagfirðinga og sláturhús Kaupfélags Vestur-Húnvetninga sem staðsett er á Hvammstanga hafa ákveðið að greiða viðbótargreiðslu á allt lambakjöt sem lagt var inn síðastliðið haust. Viðbótargreiðsla til sauðfjárbænda nemur um 10 prósentum á innlegg í ágústmánuði og um sex prósenta viðbótargreiðsla verður greidd fyrir innlegg bænda í september og október. Í tilkynningu frá kaupfélögunum segir að ágæt sala hafi verið á afurðum og að krónan hafi veikst á tímabilinu sem skapi nokkuð ágætan grundvöll til að greiða bændum þessa viðbót.

En það eru ekki allir sem hafa fengið þessa hækkun og hafa bændur sem lögðu inn til Norðlenska sent fyrirtækinu áskorun um að greiða sama álag til þeirra.

„Félag sauðfjárbænda við Eyjafjörð, Félag sauðfjárbænda í Suður-Þingeyjarsýslu, Félag sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum og Félag sauðfjárbænda á Suðurfjörðum skorar á Norðlenska ehf. að greiða innleggjendum sauðfjárafurða uppbót á haustinnlegg 2018 að lágmarki sambærilega öðrum sláturleyfishöfum,“ segir í kröfugerðinni frá bændum til fyrirtækisins.

Sauðfjárframleiðsla hefur á síðustu árum staðið illa og hefur verið nokkuð tap af framleiðslu sauðfjárafurða upp á síðkastið. Stjórnvöld og bændur hafa reynt eftir fremsta megni að flytja meira út af dýrum vöðvum til að stemma stigu við framleiðslutapinu.

Uppfært:Í fyrri útgáfu fréttarinnar var sagt að Kaupfélag Vestur-Húnvetninga væri á Blönduósi en hið rétta er að það er á Hvammstanga. Þetta hefur verið leiðrétt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×