Innlent

Vetur í dag en hlýnar aftur á morgun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Það verður napurt í kvöld ef marka má hitaspá Veðurstofunnar.
Það verður napurt í kvöld ef marka má hitaspá Veðurstofunnar. Skjáskot/veðurstofa íslands
Það verður vetrarlegt um að litast víða á landinu í dag með tilheyrandi frosti, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Veturinn staldrar þó stutt við en aftur byrjar að hlýna í veðri á morgun.

Í dag er spáð norðvestanátt og nokkru hvassviðri austantil á landinu. Snjókomu eða éljum fram yfir hádegi norðan- og austanlands en annars verður skýjað með köflum. Þá kólnar í veðri og verður frost víða 2 til 8 stig í kvöld.

„En veturinn virðist ekki kominn til að vera að þessu sinni því á morgun er spáð vaxandi suðaustanátt með rigningu suðvestan- og vestanlands síðdegis. Og aftur hlýnar í veðri. Á miðvikudag er svo útlit fyrir hvassa og hlýja suðvestanátt með rigningu, en þurru veðri Norðaustur- og Austurlandi,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á þriðjudag:

Vaxandi suðaustanátt, 10-15 og rigning eða slydda síðdegis, en hægari og þurrt á N- og A-landi. Hlýnandi, hiti 2 til 7 stig um kvöldið en kringum frostmark A-lands.

Á miðvikudag:

Suðvestan 15-23 m/s og rigning, en þurrt A-til á landinu. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast á Austfjörðum.

Á fimmtudag:

Norðlæg eða breytileg átt og þurrt að kalla. Kólnandi, frost 1 til 7 stig síðdegis, en hiti 1 til 5 stig við S-ströndina.

Á föstudag:

Suðvestanátt og rigning eða slydda, en úrkomulítið á NA- og A-landi. Hlýnandi veður.

Á laugardag:

Norðlæg eða breytileg átt og él, en slydda eða rigning S-lands. Hiti nálægt frostmarki.  Á sunnudag: Útlit fyrir sunnanátt með slyddu eða rigningu á S- og V-landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×