Sport

Fékk 118 milljóna bónusgreiðslu fyrir sigurinn í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nick Foles er meira en hundrað milljónum ríkari eftir leikinn í gær.
Nick Foles er meira en hundrað milljónum ríkari eftir leikinn í gær. Getty/Brett Carlsen

Nick Foles er annað árið í röð kominn með lið Philadelphia Eagles á fleygiferð í úrslitakeppni NFL-deildarinnar og aftur á tímabili þegar hann átti bara að vera varamaður.

Annnað tímabilið í röð meiddist nefnilega aðalleikstjórnandi Philadelphia Eagles, Carson Wentz, rétt fyrir úrslitakeppni og aftur treystu Ernirnir á hinn 29 ára gamla leikstjórnanda sinn.

Í fyrra fór Nick Foles alla leið með liðið í úrslitaleikinn og Philadelphia Eagles varð þá Super Bowl meistari í fyrsta sinn í sögu félagsins. Foles var jafnframt kosinn besti leikmaður úrslitaleiksins.

Í ár rétt skreið Philadelphia Eagles inn í úrslitakeppnina en vann síðan óvæntan en um leið nauman og dramatískan útisigur á Chicago Bears í nótt. Nick Foles leiddi lokasókn Eagles og átti snertimarkssendingu sem kom liðinu yfir í 16-15.

Chicago Bears fékk tækifæri til að tryggja sér sigur á vallarmarki fimm sekúndum fyrir leikslok en sparkari Chicago Bears skaut í stöng og út.



 

Það er ekki á hverju ári sem besti leikmaður Super Bowl árið á undan sættir sig við að vera varamaður en það gerði Nick Foles engu að síður í vetur.

Foles samdi hinsvegar vel síðasta sumar og það voru fyrir vikið margir ríflegir bónusar í boði fyrir hann á þessu tímabili.

Tveir af þessum bónusum komu í hús með sigrinum á Chicago Bears á Soldier Field. Sigurinn þýddi eina milljón dollara bónusgreiðslur fyrir Foles eða 118 milljónir íslenskra króna.

Nick Foles fékk 500 þúsund fyrir að spila 33 prósent af sóknum í leik í úrslitakeppni og aðra 500 þúsund dollara fyrir að vinna leik í úrslitakeppni.

Annar 500 þúsund dollara bónus er líka í boði fyrir Foles takist Philadelphia Eagles að vinna New Orleans Saints í næstu umferð úrslitakeppninnar um komandi helgi.

Saints er eitt allra besta lið deildarinnar og miklu sigurstranglegra en það er víst aldrei hægt að afskrifa Nick Foles.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×