Búið er að yfirheyra manninn sem grunaður er um að hafa ráðist á tvær ungar konur um hádegisbil í gær. Manninum hefur verið sleppt úr haldi og hafa báðar árásir verið kærðar til lögreglu.
Sjá einnig: Vitni lýsir hrottalegri árás á unga konu við Háaleitisbraut
Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Vísi að stuttur tími hafi liðið á milli árásanna. Maðurinn hafi fyrst ráðist á unga konu við gatnamót Suðurlandsbrautar og Vegmúla. Þaðan lá leið hans að Háaleitisbraut, þar sem hann réðst á aðra unga konu.
Ekki var unnt að yfirheyra manninn í gær sökum annarlegs ástands en það náðist svo í dag. Manninum hefur verið sleppt úr haldi en hann hefur áður komið við sögu lögreglu.
Vitni að seinni árásinni lýsti henni í gær sem „hrottalegri“ og sagði manninn hafa ráðist á konuna, sem var ökumaður bíls, eftir að bifreið hennar skagaði örlítið inn á gangbraut. Þá hafi maðurinn hent konunni inn í runna og stappað á henni.
Guðmundur Páll gat ekki staðfest þessa lýsingu á atburðarásinni en sagði rannsóknina m.a. hverfast um skýrslutökur af vitnum.
