Innlent

Eftirtektarsamir nágrannar vöktu íbúa í brennandi húsi

Kolbeinn Tumi Daðason og Margrét Helga Erlingsdóttir skrifa
Eldur kom upp í íbúðarhúsi að Stýrimannastíg í Vesturbæ Reykjavíkur á níunda tímanum í morgun. Mikill viðbúnaður er á vettvangi og var allt tiltækt slökkvilið kallað út.

Íbúum hússins varð ekki meint af þökk sé eftirtektarsömum nágrönnum sem náðu að vekja íbúana í tæka tíð. Þetta segir Ari Jóhannes Hauksson, varðstjóri hjá Slökkviliðinu sem ræddi við fréttamann á vettvangi.

„Við fengum tilkynningu um eld í þessu húsi hérna við hliðina á okkur og við sendum reykkafara inn. Það var eldur í einu rými þarna. Það leit út fyrir að eldur væri kominn í þakið en við náðum að slökkva eldinn tiltölulega fljótt í þessu eina rými og nú erum við að reykræsta húsið og að ganga úr skugga um að enginn eldur sé enn til staðar,“ segir Ari Jóhannes.

Húsið, sem stendur á horni Stýrimannastígs og Ránargötu er timburhús að hluta.

„Já, fyrsta hæðin er steypt og svo er timburhús ofan á og það er alltaf hætta þegar timburhús eru annars vegar,“ segir Ari Jóhannes.

„Nú erum við bara komnir í að reykræsta húsið og vonandi er þetta bara að klárast.“

Íbúar í hverfinu fylgjast með störfum slökkviliðsmanna úr görðum og gangstéttinni. Lögreglan hefur þó girt vettvanginn af.

Fréttin var síðast uppfærð kl. 10:07

Slökkviliðsmenn að störfum.Vísir/Kolbeinn Tumi
Minnst tveir sjúkrabílar eru á vettvangi en talið er að enginn sé innandyra.Vísir/Kolbeinn Tumi
Íbúar í hverfinu fylgjast með störfum slökkviliðsmanna.Vísir/Kolbeinn Tumi
Vísir/Kolbeinn Tumi
Allt tiltækt slökkvilið hefur verið kallað út.Vísir/Kolbeinn TumiFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.