Það munaði mestu um óvenju hlýjan apríl á mjög hlýju vori (apríl og maí). Hitinn var vel yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og síðustu tíu ára. Var hann 2,5 stigum yfir í Reykjavík, 2,8 stigum yfir á Akureyri, 2,7 stigum yfir í Stykkishólm og tveimur stigum yfir á Egilsstöðum.
Vorið var það næsthlýjasta á Akureyri, í Reykjavík og Stykkishólmi og það níunda hlýjasta á Egilsstöðum.
Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofu Íslands um tíðarfar í maí. Þar segir að maí hafi verið nokkuð hlýr og sólríkur um vestanvert landið á meðan það hafi verið kaldara norðan og austan til.
Þurrt var um land allt, þótt eitthvað hafi snjóað um landið norðan og austanvert. Jörð varð þó aldrei alhvít á Akureyri og alautt var í Reykjavík allan mánuðinn.
Norðaustlægar áttir voru ríkjandi og þá var loftþrýstingur óvenju hár í mánuðinum.
Það var síðan sólríkt suðvestanlands. Þannig mældust sólskinsstundir í Reykjavík 236,8 sem er 44,8 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990.
Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 157,4 sem er sextán stundum færri en að meðaltali 1961 til 1990.
Nánari upplýsingar um tíðarfar í maí má nálgast á vef Veðurstofunnar.
