Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Eimskipafélags Íslands hf. gegn Fjármálaeftirlitinu og íslenska ríkinu. Málið sneri að 50 milljóna króna stjórnvaldssekt sem Fjármálaeftirlitið lagði á Eimskip sökum brota á lögum um verðbréfaviðskipti.
Eimskipafélagið höfðaði mál til ógildingar stjórnvaldssektarinnar en því hefur nú verið hafnað á tveimur dómstigum. Sektin stendur því óhögguð.
Sektin var lögð á Eimskipafélagið árið 2017 vegna brota gegn 1. mgr, 122.gr laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti með því að hafa látið hjá líða að birta innherjaupplýsingar á tilsettum tíma.
Dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur 18. apríl 2018 en var skotið til Landsréttar 14. maí sama árs.
Eimskipafélagið krafðist þess að sektin yrði ógild vegna þess að Fjármálaeftirlitið hafi í ákvörðun sinni ranglega lagt til grundvallar að birtingarskyldar innherjaupplýsingar hafi orðið til í síðasta lagi 20. maí 2016 þegar fyrstu drög að árshlutauppgjöri lágu fyrir en lokaútgáfa uppgjörsins var samþykkt 26. maí.
Landsréttur, og héraðsdómur, féllst ekki á málflutning Eimskipafélagsins vegna þess að í drögum að ársreikningi hafi komið fram bægilegar upplýsingar sem hefðu getað haft áhrif á mat fjárfesta á félaginu.
Því var kröfu félagsins hafnað og Fjármálaeftirlitið, ásamt íslenska ríkinu, sýknað af kröfum Eimskipafélags Íslands.
Dóminn má lesa í heild sinni hér.
