Björgunarsveitarfólk landsins er maður ársins 2019 að mati hlustenda Bylgjunnar og lesenda Vísis.
Björgunarsveitirnar stóðu í ströngu fyrr í mánuðinum þegar mikið óveður gekk yfir landið. Yfir 1000 verkefni og aðstoðarbeiðnir bárust á landsvísu vegna veðursins en um sama leyti fór fram viðamikil leit að pilti sem hafði fallið í Núpá. Þá hafa sveitirnar staðið í tveimur umfangsmiklum leitum nú í lok árs. Annars vegar að Rimu Grunskyté Feliksasdóttur, sem talin er hafa fallið í sjóinn við Dyrhólaey, og að göngumanni á Snæfellsnesi, sem leitað hefur verið að síðan í gær.
Um 2000 tilnefningar bárust að þessu sinni og kusu lesendur svo á milli tíu aðila. Segja má að úrslitin hafi verið afgerandi þar sem björgunarsveitirnar hlutu alls 5551 atkvæði eða 38% af þeim rúmlega 14.500 atkvæðum sem greidd voru.
Fjölmiðlamaðurinn Helgi Seljan var í öðru sæti með tæp 14% atkvæða og uppljóstrarinn í Samherjamálinu, Jóhannes Stefánsson í því þriðja með tæp 13% prósent atkvæða.
Þau sem voru einnig tilnefnd: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, Bjartmar Leósson, hjólahvíslari, Eliza Reid, forsetafrú, Hildur Guðnadóttir, tónskáld, Margrét Lillý Einarsdóttir, sem sagði sögu sína í Kompás, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Hér að neðan má hlusta á viðtal við Þór Þorsteinsson, formann Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, en hann tók við tilnefningunni Maður ársins fyrir hönd síns fólks.
Fréttastofa Bylgjunnar, Stöðvar 2 og Vísis velur sömuleiðis mann ársins en tilkynnt verður hver hreppir hnossið í Kryddsíldinni í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2 klukkan 14.