Eva Björk Harðardóttir, oddviti Skaftárhrepps, var kosinn formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) á aukaaðalfundi samtakanna sem fór fram í Vestmannaeyjum í dag.
Eva Björk tekur við starfinu af Gunnari Þorgeirssyni fráfarandi oddvita Grímsnes og Grafningshrepps.
„Starfið leggst bara vel í mig, það er fullt af nýju og reyndu áhugasömu sveitarstjórnarfólki með mér í nýju stjórninni til að vinna með. Mín fyrstu verk verða að rekja garnirnar úr fráfarandi formanni og koma mér inn í öll mál.
Brýnustu mál SASS í dag eru að koma almenningssamgöngumálunum í horf því vegna mikils taps síðustu ára á rekstrinum þarf að koma til fé frá ríkinu eða finna málaflokknum annan farveg. Við þurfum einnig að skoða í sameiningu sveitarfélögin, hvernig við viljum sjá landshlutasamtökin þróast“, segir Eva Björk, nýr formaður SASS.
Innan SASS eru fimmtán sveitarfélög á Suðurlandi með um 28 þúsund íbúa.
