Þröstur Emilsson, sem þar til á föstudag var framkvæmdastjóri ADHD-samtakanna, hefur verið kærður til lögreglu fyrir fjármálamisferli. Þetta herma heimildir Vísis en fyrst var greint frá málinu á vef RÚV.
Samkvæmt heimildum Vísis var Þröstur kærður til lögreglu á þriðjudag. Hann hefur verið framkvæmdastjóri ADHD-samtakanna frá árinu 2013 en áður hafði hann starfað sem verkefnastjóri hjá samtökunum.
Á þriðjudag var sett inn tilkynning á vef ADHD-samtakanna um að stjórn samtakanna hefði ákveðið að leysa Þröst frá störfum. Ellen Calmon sem setið hefur í stjórn samtakanna hefur fallist á að taka við verkefnum hans þar til nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn.
„Um ástæður þessara breytinga, sem því miður eru óhjákvæmilegar að mati stjórnar, verður gerð grein síðar,“ segir í tilkynningunni.
Vilhjálmur Hjálmarsson, varaformaður ADHD-samtakanna, segir í samtali við Vísi að það sé litlu við tilkynninguna að bæta.
Málið sé í eðlilegum farvegi en það liggi í augum uppi að Þröstur hafi ekki lengur notið trausts stjórnar samtakanna. Þá sé málið flókið og á viðkvæmu stigi og segir Vilhjálmur það engum til framdráttar að ræða það efnislega í fjölmiðlum.
Framkvæmdastjóri ADHD-samtakanna kærður til lögreglu fyrir fjármálamisferli
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
