Kjaradeila Ljósmæðrafélags Ísland og ríkisins harðnar dag frá degi og hafa á þriðja tug ljósmæðra sagt upp störfum á Landsspítalanum af þeim ríflega 150 sem þar starfa. Flestar uppsagnirnar taka gildi 1. júlí.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, hvatti samningsaðila í pistli sínum í gær til þess að klára samningsgerð sem allra fyrst því þetta væri óþolandi staða. Næsti fundur í deilunni er boðaður hjá ríkissáttasemjara þann 16. apríl.
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, sagði í samtali við fréttastofu að hluti af þeim ljósmæðrum sem hefðu sagt upp væru búnar að fá aðra vinnu. Ef ekki takist að semja sé hætta á neyðarástandi á fæðingardeildum í sumar.
Sagði starfi sínu lausu eftir 12 ár
Guðrún Fema Ágústsdóttir, ljósmóðir á meðgöngu- og sængurkvennadeild Landspítalans, sem hefur unnið sem ljósmóðir í tólf ár sagði upp starfi sínu um síðustu mánaðarmót til að undirstrika óánægju með kjör sín.„Þetta er skemmtilegasta vinna sem til er og mest gefandi vinna sem til er, en við lifum náttúrulega ekki bara af á því að vera í kærleiksríku starfi. Við verðum að fá laun – og réttlát laun.”
Guðrún segist hafa miklar áhyggjur af sumrinu ef takist ekki að semja við ljósmæður áður en að uppsagnir taki gildi.
„Sumarið yfir höfuð er annamesti tími ársins í fæðingum þannig að sjálfsögðu er þetta mjög slæmt mál.”
Að sögn Guðrúnar ætla nýútskrifaðar ljósmæður ekki að koma til starfa fyrr en búið er að leiðrétta kjörin. Það sama eigi við hjá henni.