„Breytingarnar munu flýta fyrir þinglýsingu skjala enda verður ferlið nánast sjálfkrafa þegar tölvukerfið verður komið í gagnið,“ segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. „Þannig náum við að draga verulega úr umstangi fólks í kringum þinglýsingar og létta á vinnuálagi hjá sýslumannsembættunum.“
Sigríður segir að atvinnulífið hafi beðið lengi eftir rafrænum þinglýsingum en málið var fyrst tekið til skoðunar árið 2010.
„Þetta mál var búið að velkjast um alltof lengi í stjórnkerfinu að mínu mati og ég lagði því áherslu á að koma því í gegn.“Dómsmálaráðuneytið áætlaði á árinu 2010 að sparnaður hjá sýslumannsembættinu vegna rafrænnar þinglýsingar á veðskuldabréfum yrði að minnsta kosti 70 milljónir. Þá áætluðu fjármálafyrirtæki að þau gætu sparað að lágmarki 5.500 krónur á hvert veðskuldabréf í formi pappírs og vinnu sem samsvarar mörg hundruð milljónum króna ári.
Bergþóra Sigmundsdóttir, sviðsstjóri hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, segir að með tilkomu rafrænna þinglýsinga verði fullnægjandi skjölum þinglýst á sekúndubrotum. „Séu skjölin hins vegar ófullnægjandi er þeim vísað frá á sekúndubrotum eða þau fara í handvirka vinnslu sem getur þá tekið lengri tíma. Það verður nokkur fjöldi í byrjun sem fer í handvirka vinnslu en sá hluti verður alltaf minni og minni eftir því sem árin líða,“ segir Bergþóra. Bið eftir þinglýsingu kaupsamninga hjá sýslumanni hefur lengst upp í rúmlega tvær vikur frá því í mars vegna manneklu en dæmi eru um margra mánaða bið