Innlent

Gargandi eftirspurn eftir húsnæði knýr ólöglega búsetu áfram

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Bjarni Kjartansson sviðsstjóri forvarnarsviðs Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.
Bjarni Kjartansson sviðsstjóri forvarnarsviðs Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. FBL/Auðunn
Slökkviliðið hefur ekki mannafla til að ráðast í aðgerðir vegna fjölda þeirra sem búa í ólöglegu íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Talið er að minnst um þrjú þúsund og sex hundruð manns búi í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, þar af ellefu hundruð í Hafnarfirði.

Bara toppurinn á ísjakanum segir sviðsstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Fréttablaðið fjallar um málið í dag en í samtali við fréttastofu segir Bjarni Kjartansson, sviðstjóri hjá slökkviliðinu að staðan hafi verið kortlögð í fyrra en málið er ekki til sérstakrar skoðunar sem stendur.

„Við erum ekki að því, bara höfum ekki mannafla til þess. Við skoðuðum náttúrlega skráningar, lögheimilisskráningar og símaskráningar. Við sjáum það náttúrulega á Já.is ef einstaklingar eru skráðir í atvinnuhúsnæði, þá er það vísbending um búsetu.“

Af höfuðborgarsvæðinu búa hlutfallslega flestir í ólöglegum búsetuformum í Hafnarfirði.

„Það virðist vera hlutfallslega mikið þar. En í heildina á höfuðborgarsvæðinu er þetta áætlað út frá lögheimilisskráningum, þar eru um 3600 manns. Það getur verið mikil skekkja í þessu en ólíklegt að það sé færra heldur en það.“

Hann segir áhyggjuefni að svo margir búi við þessar aðstæður og kveðst ekki vita til þess hvort málið sé í einhverju ferli hjá sveitarfélögunum. Allir viti af ólöglegu búsetunni og þótt slökkviliðið einbeiti sér að eldvörnum og öryggi séu þau mál bara toppurinn á ísjakanum.

„Það er bæði þónokkuð um eldra atvinnuhúsnæði sme er kannski erfitt að nýta, erfitt að leigja og ólöglegt að selja. Á sama tíma er bara gargandi eftirspurn eftir húsnæði,“ segir Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.