Í dag býr hún í sérútbúinni íbúð við Sléttuveg ásamt fjögurra ára gamalli dóttur sinni. Hún segir að nýr veruleiki sé að einhverju leyti enn að síast inn, en einn tiltekinn dagur suður í Sevilla er henni sérstaklega minnistæður.
Sá spegilmyndina í glugganum
„Ég fór með mömmu minni í göngutúr af spítalanum og hún rúllaði mér framhjá búðarglugga. Ég sé spegilmyndina mína í glugganum þegar við erum að fara framhjá og ég sé mig í hjólastólnum. Það var í rauninni eitt fyrsta skiptið sem ég sé mig í stólnum. Þá einhvern veginn rann upp fyrir mér, já, þetta er ég. Þetta er nýja ég, ég er stelpan í hjólastólnum.“
„Það er svona frelsistilfinning sem fylgir því að vera bara í lauginni og vera laus við stólinn í smá stund. Mér finnst ég hafa meira vald á líkamanum,“ segir Sunna.
Búin að upplifa allan tilfinningaskalann
Sunna kveðst fljótt hafa ákveðið að tækla nýjar aðstæður á jákvæðninni, enda ekkert sem hún gat gert til að breyta því sem gerst hafði. Hún viðurkennir þó að það sé misauðvelt að horfa á björtu hliðarnar.„Það auðvitað koma dagar þar sem ég er vonsvikin og leið. Ég er búin að upplifa allan tilfinningaskalann, en góðu dagarnir eru miklu fleiri en þeir slæmu. Það kemur alveg einn dagur inn á milli þar sem ég er döpur og jafnvel græt bara af vonleysi þegar eitthvað gengur ekki upp. En lífið er ekki alltaf dans á rósum,“ segir Sunna.
Sunna Elvira var heimsótt í Íslandi í dag í gær og meðal annars spurð út í daglegt líf, framtíðaráætlanir, skilnaðinn og slysið á Spáni.