Innlent

Opna göngustíg fyrir hreyfihamlaða við Fjaðrárgljúfur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Göngustígurinn við Fjaðrárgljúfur er fær hreyfihömluðum.
Göngustígurinn við Fjaðrárgljúfur er fær hreyfihömluðum. Mynd/Umhverfisstofnun
Nýr göngustígur hefur verið opnaður við Fjaðrárgljúfur frá Lakavegi að útsýnispalli við gljúfrið. Fyrirtækið Stokkar og Steinar gerir stíginn en hann er hannaður til að verða fær hjólastólum fullkláraður. Þetta kemur fram í frétt á vef Umhverfisstofnunar.

Þar segir að göngustígurinn sé uppbyggður malarstígur, að jafnaði 1,6 metrar á breidd. Geogrid er notað á blautustu köflunum, þunnt plastnet, sem sett er undir mölina til að koma í veg fyrir að mold og möl blandist saman og að stígurinn sígi þannig að hann fljóti í raun ofan á votlendinu.

Framkvæmdin er samvinnuverkefni Umhverfisstofnunar, landeigenda og sveitarfélagsins. Megintilgangurinn er að draga úr álagi á náttúru svæðisins með stýrðri umferð og bæta um leið aðgengi fyrir hreyfihamlaða. Göngustígurinn hefur verið opnaður og er hægt að ganga frá útskoti við Lakaveg.

Umhverfisstofnun bendir á að takmörkuð bílastæði eru við Fjaðrárgljúfur miðað við þann gríðarlega fjölda gesta sem heimsækja svæðið dag hvern. Eins og áður hefur komið fram er svæðið illa farið vegna ágangs ferðamanna. Hefur verið brugðist við því með aukinni landvörslu, uppbyggingu innviða og stýrðri umferð um svæðið.

„Því miður fara ekki allir gestir eftir reglum sem gilda á svæðinu. Þess vegna gengur illa að græða upp sár í gróðursverðinum á hluta svæðisins og er þar helst að nefna brúnir Fjaðrárgljúfur. Mikilvægt er að við tökum höndum saman og upplýsum gesti um mikilvægi þess að fara eftir þeim reglum sem gilda á náttúruverndarsvæðum svo okkur takist að vernda þau gegn ágangi og koma í veg fyrir lokanir,“ segir í frétt á vef stofnunarinnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.