Innlent

Félagi múslima á Íslandi gert að greiða 2,6 milljónir í vangoldin laun

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Salmann Tamimi, formaður Félags múslima á Íslandi.
Salmann Tamimi, formaður Félags múslima á Íslandi. Vísir/Anton Brink
Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að Félag múslima á Íslandi sé skylt að greiða Haraldi Helgasyni rúmar 2,6 milljónir vegna vinnu Haralds sem trúnaðarmann sí samkeppni um hönnun mosku í Reykjavík.

Í dómi Landsréttar segir að óumdeilt væri að komist hefði á samningur milli aðila málsins um að Haraldur sinnti störfum trúnaðarmanns á grundvelli samnings Félags múslima á Íslandi og Arkitektafélags Íslands um samstarf vegna opinnar hugmyndasamkeppni um mosku í Reykjavík.

Ekki var fallist á það með félaginu að Haraldur hefði ekki gætt að samningsskyldum sínum við framkvæmd trúnaðarmannsstarfs síns. Þá var talið ósannað að hann hefði vitað eða mátt vita um kostnaðarmat vegna hönnunarsamkeppninnar og efni þess fyrr en eftir höfðun málsins.

Samkvæmt samningnum átti Haraldur að fá greiddar 12.206 krónur á klukkustund fyrir störf sín sem trúnaðarmaður. Hann hafi síðan lagt fram tímaskýrslu þess efnis að hann hafi unnið 157 vinnustundir frá nóvember 2014 til nóvember 2015.

Félagið byggði á því að reikningur Haraldar hafi verið mun hærri en hlutverk hans sem trúnaðarmaður gæti réttlætt. Þær innborganir sem þegar hafi verið greiddar inn á kröfu Haraldar nemi þá hærri fjárhæð en hann gæti með réttu krafist vegna framlags síns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×