Innlent

Anna Kolbrún enn undir feldi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Anna Kolbrún Árnadóttir, starfandi þingflokksformaður Miðflokksins, á leiðinni á fund þingflokksformanna í morgun.
Anna Kolbrún Árnadóttir, starfandi þingflokksformaður Miðflokksins, á leiðinni á fund þingflokksformanna í morgun. Vísir/Vilhelm

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins og starfandi þingflokksformaður, segist enn vera að hugsa stöðu sína sem þingmaður. Anna Kolbrún var ásamt öðrum þingmönnum, sem jafnframt eru stjórnarmenn Miðflokksins, og tveimur sem nú hafa verið reknir úr Flokki fólksins á Klausturbar í samnefndum upptökum sem fjallað hefur verið um undanfarna daga.

Anna Kolbrún er sú eina af þingmönnunum sex sem sagst hefur vera að íhuga stöðu sína á Alþingi. Þó er líklega óhætt að fullyrða að ummæli hennar á fyrrnefndum upptökum séu ekkert í líkingu við ummæli flokksfélaga hennar þeirra Bergþórs Ólasonar og Gunnars Braga Sveinssonar, sem komnir eru í ótilgreint launalaust leyfi, og flokksformaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Jóhann K. Jóhannsson, fréttamaður Stöðvar 2, hitti Önnu Kolbrúnu á skrifstofum Alþingis í morgun þar sem hún var á hlaupum á þingflokksformannafund. Hún er nú starfandi þingflokksformaður á meðan Gunnar Bragi er í leyfi.

„Ég ætla að ræða við fréttamenn eftir fund,“ sagði Anna Kolbrún en spurð hvort von væri á viðbrögðum eftir fundinn í forsætisnefnd sagði Anna Kolbrún: „Dagurinn er ekki búinn. Ég er enn að hugsa.“

Aðspurð sagði hún viðbrögð almennings við Klaustursupptökunum „skiljanleg.“

Ræddi stjórnin málið um helgina?

„Stjórn Miðflokksins hefur rætt þetta mjög lengi,“ sagði Anna Kolbrún sem fram til þessa hefur ekki treyst sér í viðtal við fréttastofu vegna málsins. Aðspurð hvort formaðurinn væri að íhuga stöðu sína sagðist hún aðeins geta svarað fyrir sig. Þá vissi hún ekki hvenær væri von á frekari viðbrögðum.

Anna Kolbrún sagðist á fimmtudag vera að íhuga stöðu sína. Síðan eru liðnir fimm dagar.

Þetta er orðinn langur tími?

„Já, mjög. Það verður bara að hafa sinn gang.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.