Innlent

Engar reglur í gildi um leyfi þingmanna

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Gunnar Bragi og Bergþór Ólason eru báðir farnir í launalaust leyfi.
Gunnar Bragi og Bergþór Ólason eru báðir farnir í launalaust leyfi.

Engar reglur gilda um hversu lengi eða undir hvaða kringumstæðum þingmenn geta tekið sér launalaust leyfi. Þetta segir Helgi Bernódusson skrifstofustjóri Alþingis í samtali við Vísi.

„Það er engin afmörkun á því. Það eru dæmi þess að menn hafi verið heilan vetur í leyfi frá þingstörfum fyrr og síðar.“

Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason þingmenn Miðflokksins eru farnir í launalaust leyfi frá þingstörfum. Í ræðu sinni við upphaf þingfundar í gær sagði Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis að leyfið væri af „persónulegum ástæðum.“

Þurfa að skila rökstuddri beiðni

Ívið strangari reglur virðast gilda um slík leyfi í ýmsum löndum sem við viljum bera okkur saman við. Í Danmörku og Svíþjóð þarf til dæmis að skila inn skriflegri og rökstuddri beiðni ætli þingmaður að taka sér ótímabundið leyfi frá þingstörfum. Í handbók Alþingismanna eru engin dæmi um slíkt.

Þannig stendur á vef sænska þingsins að forseti þingsins fari yfir allar beiðnir ef þær varði leyfi sem er styttra en einn mánuður. Sé beiðni um leyfi í meira en einn mánuð þarf þingið að fara yfir hana.

Í Danmörku skal beiðni um leyfi skila skriflega til ritara þingsins sem afgreiðir beiðnina fyrir hönd forseta þingsins.

„Það eru ýmsar reglur og sums staðar eru ekki einu sinni hægt að segja af sér og svona. En þetta er nú hér hjá okkur. Menn hafa haft tiltölulega frjálsan aðgang að þessu og þetta hefur eins og ég segi tíðkast bæði fyrr og síðar af ýmsum ástæðum og yfirleitt tilgreina menn ástæðuna eða hún er alveg augljós.“
 


Tengdar fréttir

Anna Kolbrún enn undir feldi

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins og starfandi þingflokksformaður, segist enn vera að hugsa stöðu sína sem þingmaður.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.