Innlent

Meirihluti þjóðarinnar vill að þingmennirnir sex segi af sér

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá mótmælum á Austurvelli vegna Klaustursmálsins síðastliðinn laugardag.
Frá mótmælum á Austurvelli vegna Klaustursmálsins síðastliðinn laugardag. Vísir/VIlhelm
Meirihluti þjóðarinnar, eða á milli 74 prósent og 91 prósent Íslendinga, er hlynntur því að þingmennirnir sex sem sátu saman á Klaustur bar þann 20. nóvember síðastliðinn segi af sér. Þetta kemur fram í nýrri könnuna rannsóknafyrirtækisins Maskínu.

Samkvæmt könnuninni vilja flestir, eða 91 prósent, að Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, segi af sér. 90 prósent landsmanna vilja að Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, segi af sér en bæði hann og Gunnar Bragi eru farnir í leyfi frá þingstörfum.

86 prósent landsmanna vilja að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segi af sér og 85 prósent að Karl Gauti Hjaltason víki af þingi. Hann var þingmaður Flokks fólksins en er í dag óháður þingmaður eftir að hann og Ólafur Ísleifsson voru reknir úr Flokki fólksins.

Ólafur var einnig á Klaustur barnum og vilja 82 prósent landsmanna að hann segi af sér. Fæstir, eða 74 prósent, vilja að Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, hætti á þingi.

Svarendur voru 1311 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks, dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri.


Tengdar fréttir

Ætla að starfa saman sem óháðir þingmenn utan flokka

Ólafur Ísleifsson, sem tók sæti á þingi fyrir Flokk fólksins eftir þingkosningar 2017, kveðst ætla að starfa áfram sem óháður þingmaður utan flokka en hann var rekinn úr Flokki fólksins ásamt Karli Gauta Hjaltasyni síðastliðinn föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×