Lífið

Nafnar Gunnars Braga íhuga að vísa honum úr hóp sínum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gunnar Bragi bíður þess að Gunnarar landsins kveði upp dóm sinn.
Gunnar Bragi bíður þess að Gunnarar landsins kveði upp dóm sinn. Vísir/Vilhelm

Þessa stundina stendur yfir könnun í hópnum Gunnarar á Facebook þar sem meðlimir hópsins taka afstöðu til þess hvort vísa eigi Gunnari Braga Sveinssyni úr hópnum. Hópurinn telur 758 meðlimi, sem allir bera nafnið Gunnar, en til hans var stofnað fyrir um fjórum árum. Er um að ræða einn fjölmargra hópa þar sem nafnar safnast saman í hópum á Facebook.

Það var Gunnar Hlynur Úlfarsson sem deildi frétt Stundarinnar um tal Klausturmanna tengdu heimilisofbeldi og varpaði fram eftirfarandi pælingu:

„Eins og fólk veit nú er þetta bara lítið brot af því sem kom fram í þessum umtöldu umræðum. Nú er Gunnar Bragi Sveinsson meðlimur í þessum hópi hér og mig langar að spyrja hvort að það sé vilji til að láta admina reka hann héðan (strippa hann af titlinum Gunnar ef við getum orðað það svoleiðis) og sýna þannig gott fordæmi að maður vilji ekki vera í hóp með svona fólki. Endilega segið ykkar skoðun.“

Gunnar Bragi er í launalausu leyfi frá þingstörfum þessa dagana eins og Bergþór Ólason vegna tals þeirra á Klausturbar þann 20. nóvember síðastliðinn. Kallað hefur verið eftir afsögn Gunnars Braga, meðal annars í mótmælum á Austurvelli á fullveldisdaginn, en hann hefur ekki sagt ástæðu til að segja af sér. Fyrir liggur að Gunnar Bragi hefur áhuga á að starfa utan landsteinanna í utanríkisþjónustunni.

Stuðningur við Gunnar Braga er töluverður í hópnum en þegar þetta er skrifað segja 55 að hann megi vera í hópnum þeirra vegna. 23 segjast hins vegar vilja að Gunnar Bragi verði rekinn úr hópnum. Nokkrar umræður hafa skapast við þráðinn þar sem Gunnar Hrafn Jónsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, biðst meðal annars afsökunar á að hafa boðið Gunnari Braga í hópinn til að byrja með.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.