Innlent

Fimm sluppu ómeiddir þegar snjóflóð féll á bíla við Flateyri

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Flateyri. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Frá Flateyri. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Egill.
Tveir bílar lentu í snjóflóði sem féll á Flateyrarveg en fimm manns sem voru í þeim komust allir út ómeiddir og af sjálfsdáðum áður en slökkvilið og björgunarsveitarmenn komu á staðinn.

Hlynur Kristjánsson, varðstjóri hjá slökkviliði Ísafjarðarbæjar, segir að flóðið hafi fallið á Flateyrarvegi á Hvilftarströnd innan við Flateyri. Þeir sem voru í bílunum sem lentu í flóðinu hafi verið komnir úr þeim þegar viðbragðsaðilar komu á staðinn. Fólkið hafi verið skoðað en ekki farið með það á sjúkrahús.

Björgunarsveitarmenn á Flateyri voru kallaðir út vegna flóðsins og starfssystkini þeirra á Ísafirði voru sett í viðbragðsstöðu.

Í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á Vestfjörðum kemur fram að önnur bifreiðin hafi oltið með flóðinu frá veginum og niður í fjöruborð. Læknir og sjúkralið hafi skoðað fólkið en meiðsl þess hafi ekki verið teljandi.

Veginum var lokað og hann verður ekki opnaður aftur í nótt. Einnig hefur verið ákveðið að loka veginum um Súðavíkurhlíð á miðnætti vegna hættu á snjóflóðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×