Innlent

Guðlaugur undirritaði fríverslunarsamning og ræddi mál Hauks

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Nihat Zeybecki, efnahagsmálaráðherra Tyrklands, undirrituðu í gær uppfærslu á fríverslunarsamningi landanna tveggja. Samningurinn við Tyrki tók gildi á vormánuðum 1992 og er elsti núgildandi samningur EFTA við þriðja ríki. Hann inniheldur ákvæði um mannréttindi sem Tyrkir skulu í heiðri halda.

Ráðherrarnir ræddu einnig stöðu mannréttinda í Tyrklandi og mál Hauks Hilmarssonar. Rúmir þrír mánuðir eru liðnir síðan sagt var frá því að Haukur hefði fallið í stríðsátökum í Sýrlandi en andlát hans hefur enn ekki verið staðfest.

Sjá einnig: Ætlar að ræða við tyrkneskan ráðherra um mál Hauks

Á fundinum kom Guðlaugur Þór á framfæri gagnrýni stjórnvalda á það hvernig Tyrkir koma fram við borgara sína. Þá gagnrýndi hann einnig hernaðarbrölt ríkisins í Afrin-héraði í Sýrlandi en þar er Haukur talinn hafa fallið. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að Zeybecki hafi tekið erindinu um mál Hauks vel en að hann hefði engar upplýsingar sem gætu varpað ljósi á málið.

„Ég hef tekið upp mál Hauks Hilmarssonar við varnarmálaráðherra og utanríkisráðherra Tyrklands og aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa líka vakið máls á því við erlenda ráðamenn. Með komu tyrkneska ráðherrans hingað til lands gafst okkur enn eitt tækifærið til að knýja á um frekari upplýsingar og samstarf í þessu sorglega máli,“ segir Guðlaugur Þór.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.