Innlent

Hæstiréttur staðfestir lögbann á deilisíður

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögbann á vinsælar deilisíður á netinu var staðfest árið 2015.
Lögbann á vinsælar deilisíður á netinu var staðfest árið 2015. Vísir
Netþjónustufyrirtækinu Hringiðunni ber að hindra aðgang viðskiptavina sinna að skráaskiptasíðum þar sem höfundaréttarvörðu efni er deilt. Hæstiréttur staðfesti lögbann sem lagt var á aðgang að síðunum árið 2015 í dag.

Sýslumaðurinn í Reykjavík lagði lögbann við því að Hringiðan og fleiri netþjónustufyrirtæki veittu viðskiptavinum aðgang að síðum eins og Deildu.net, Piratebay og fleiri vinsælum skráaskiptisíðum að kröfu Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF).

Hringiðan áfrýjaði dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfesti lögbannið á sínum tíma til Hæstaréttar og krafðist þess að staðfestingu lögbannsins yrði synjað.

Hæstiréttur taldi hins vegar nægilega sýnt fram á að rétthafar ættu höfundarétt að efni sem deilt væri í heimildarleysi á vefsíðunum fyrir milligöngu fjarskiptafyrirtækja eins og Hringiðunnar. Því staðfesti Hæstiréttur lögbannið.

Hringiðan var jafnframt dæmd til þess að greiða STEF eina og hálfa milljóna króna í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.