Innlent

Gular viðvaranir í gildi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eins og sést á þessari vindaspá Veðurstofunnar verður ansi hvasst sunnan- og suðaustanlands í kvöld.
Eins og sést á þessari vindaspá Veðurstofunnar verður ansi hvasst sunnan- og suðaustanlands í kvöld. veðurstofa íslands

Gular viðvaranir eru í gildi vegna vinds á Suður- og Suðausturlandi í dag. Þá eru gular viðvaranir einnig í gildi fyrir Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra frá miðnætti og fram á morgundaginn vegna hríðarveðurs.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að viðvaranirnar eigi einkum við undir Eyjafjöllum og í Öræfum þar sem hviður geta farið yfir 35 metra á sekúndu.
 
Núna með morgninum nálgast lægð úr suðri og mun hún valda því að það hvessir sunnanlands upp úr hádegi með rigningu.

„Þegar líður á daginn hvessir einnig annars staðar og fer að rigna þó að áhrifin af þessari lægð munu verða mest með suðurströndinni í dag.

Í kvöld snýst vindurinn til norðlægrar áttar og bætir í hann um landið norðanvert, fyrst á Vestfjörðum þar sem útlit er fyrir norðaustan storm með snjókomu í nótt og fram eftir degi á morgun. Gul viðvörun fyrir hríð er í gildi á þeim slóðum,“ segir meðal annars í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur í dag og næstu daga:

Vaxandi austlæg átt með morgninum, austan og norðaustan 13-23 m/s eftir hádegi með rigningu eða slyddu, fyrst syðst. Hvassast með S-ströndinni.

Norðlægari í kvöld og bætir í vind um landið N-vert. Norðaustan hvassviðri eða stormur N- og NV-til í nótt og á morgun með snjókomu. Lengst af hægari vindur A-lands með rigningu og styttir upp sunnan heiða. Allhvöss norðanátt um allt land annað kvöld og áfram úrkoma fyrir norðan.

Hiti 1 til 9 stig, mildast syðst.

Á fimmtudag:
Norðan hvassviðri eða stormur N- og NV-til með slyddu eða snjókomu, lengst af mun hægari vindur um landið A-vert og rigning, en styttir upp S-lands þegar líður á daginn. Hiti frá frostmarki í innsveitum fyrir norðan, upp í 8 stig syðst. Hægari um kvöldið.

Á föstudag:
Minnkandi norðanátt og léttir víða til, en él NA-til. Kalt í veðri.

Á laugardag:
Gengur í hvassa suðaustanátt með rigningu eða slyddu S- og V-lands, annars úrkomulítið. Hægari V-til um kvöldið. Hlýnar í veðri.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.