Innlent

Skipverji á Frosta ÞH hlaut annars stigs bruna

Gissur Sigurðsson skrifar
Sigmaður Gæslunnar fer um borð í Frosta ÞH í gærkvöldi.
Sigmaður Gæslunnar fer um borð í Frosta ÞH í gærkvöldi.
Skipverjinn af togaranum Frosta ÞH, sem þyrla Gæslunnar sótti út á Vestfjarðarmið, og var meðhöndlaður á Landspítalanum eftir að eldur kom upp í togaranum, hlaut annars stigs bruna á handleggjum og herðum. Varðskipið Týr er nú á leið með togarann í togi áleiðis til Hafnarfjarðar.

Öll áhöfnin, ellefu menn, er enn um borð nema hvað umræddur áhafnarmeðlimur var fluttur með þyrlu til Ísafjarðar undir kvöldmat í gær og þaðan með sjúkraflugvél til Reykjavíkur.

Fjórir slökkviliðsmenn voru fluttir með gæsluþyrlu út í togarann til að ljúka slökkvistarfi um borð og eru þeir þar enn, en verða sóttir hvað og hverju.

Ljósavél er í gangi um borð þannig að ljós og hiti er í togaranum og eldavélin virkar þannig að vel fer um mannskapinn, að sögn Þorsteis Harðarsonar skipstjóra núna fyrir hádegið.

Aðalvélin er hinsvegar biluð og viðrist eldurinn hafa kviknað út frá henni, en annars segir Þorsteinn að ekki liggi enn fyrir af hverju eldurinn kviknaði og magnaðist hratt. Áhöfnin náði að slökkva eldinn samkvæmt neyðaráætlun skipsins, en reyk lagði í fyrstu um allt skipið.

Slökkviliðsmenn, sem komu með þyrlu um borð, reykræstu það. Skipin eru nú vestur af landinu í þokkalegu veðri á rúmlega 6 sjómílna hraða og búist við þeim til Hafnarfjarðar í fyrramálið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×