Innlent

Einar Sæmundsen ráðinn í stöðu þjóðgarðsvarðar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Einar Á. E. Sæmundsen er nýráðinn þjóðgarðsvörður á Þingvöllum.
Einar Á. E. Sæmundsen er nýráðinn þjóðgarðsvörður á Þingvöllum. vísir/sunna

Einar Á. E. Sæmundsen var í dag ráðinn í stöðu þjóðgarðsvarðar. Það var samþykkt á fundi Þingvallanefndar fyrr í dag. Einar hefur gegnt stöðu þjóðgarðsvarðar síðastliðið ár en Ólafur Örn Haraldsson, forveri hans í starfi, lét af störfum sökum aldurs.

Einar var í dag boðaður á fund nefndarinnar en ásamt honum sat Ólína Þorvarðardóttir fundinn, en hún sótti einnig um stöðu þjóðgarðsvarðar.

Einar er menntaður landfræðingur og landslagsarkitekt. Hann hefur starfað á vegum þjóðgarðsins sem fræðslufulltrúi frá árinu 2001.

Í færslu á Facebook-síðu sinni fyrr í kvöld lýsti Ólína yfir miklum vonbrigðum með að hafa ekki fengið stöðuna. Þar segist hún telja að litið hafi verið fram hjá menntun hennar og reynslu sem hún taldi falla vel að starfinu sem sótt var um. Ólína er með doktorspróf í íslenskum bókmenntum og þjóðfræðum.

„Það sem ég virðist hafa unnið mér til óhelgi, í þetta skipti sem oftar, er að vera komin yfir fimmtugt og hafa þjónað þjóð minni sem alþingismaður.“

Þetta er meðal þess sem segir í færslu Ólínu, en nánar má lesa um óánægju Ólínu hér.

Fréttin var uppfærð klukkan 00:44.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×