Innlent

Sýknuð af kröfum sveitarfélags í Airbnb-máli

Birgir Olgeirsson skrifar
Héraðsdómur Suðurlands er á Selfossi.
Héraðsdómur Suðurlands er á Selfossi. Vísir/Vilhelm
Héraðsdómur Suðurlands hefur sýknað par af kröfu sveitarfélagsins Grímsnes- og Grafningshrepps vegna álagningar fasteignaskatts á sumarbústað sem var gerður út á leiguvefnum Airbnb.

Hreppurinn taldi að leggja ætti 1,32 prósenta fasteignaskatt á sumarbústaðinn á grundvelli laga tekjustofna sveitarfélaga þar sem sumarbústaðurinn var nýttur fyrir ferðaþjónustu. Þessu hafnaði parið og taldi að leggja ætti 0,5 prósenta fasteignaskatt á sumarbústaðinn, líkt og kveður á í lögunum þegar kemur að sumarbústöðum.

Parið hafði kært ákvörðun hreppsins til yfirfasteignamatsnefndar, en nefndin komst að sömu niðurstöðu og þar sem parið hafði tilkynnt til sýslumanns að sumarbústaðurinn yrði nýttur undir heimagistingu. 

Ein og hálf milljón á hreppinn

Héraðsdómur Suðurlands var þessu sammála og sagði að skýrt sé tekið fram í lögum að heimagisting, sem uppfyllir skilyrði laganna, teljist ekki fara fram í atvinnuhúsnæði í skilningi laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Tók dómurinn fram að lög um heimagistingu væru yngri en lög um tekjustofna sveitarfélaga og benti á að það væri eindreginn vilji löggjafans að heimagisting teljist ekki nýting húsnæðis í atvinnuskyni. Því lék enginn vafi á því að mati dómsins að skattlagning ætti að heyra undir þá sem kveðið er á um sumarbústaði, en ekki atvinnuhúsnæði.

Var parið sýknað af öllum kröfum hreppsins og hreppurinn dæmdur til að greiða þeim málskostnað upp á eina og hálfa milljón króna. 

Dóminn má lesa hér.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×