Innlent

Vilja að stjórn OR taki afstöðu til þess hvernig tekið verði á „marklausri uppsögn“ Áslaugar Thelmu

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Áslaug Thelma Einarsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður hjá Orku náttúrunnar.
Áslaug Thelma Einarsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður hjá Orku náttúrunnar. Vísir
Lögfræðingur Áslaugar Thelmu Einarsdóttur fyrrverandi forstöðumanns hjá Orku náttúrunnar sendi stjórn Orkuveitu Reykjavíkur erindi á stjórnarfund í gær. Í erindinu var farið fram á að stjórnin taki afstöðu til þess með hvaða hætti verði tekið á „marklausri uppsögn“ hennar hjá fyrirtækinu.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur kom saman til fundar í húsakynnum Orkuveitu Reykjavíkur í gærkvöldi en ástæðan er sú atburðarrás sem uppsögn Áslaugar Thelmu hjá Orku náttúrunnar hefur hrundið af stað hjá fyrirtækinu.

Áslaug Thelma hefur gefið út að hún ætli að leita réttar síns af fullum þunga enda hafi henni verið sagt upp án allra skýringa og eftir kvartanir um framferði framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

Sjá einnig:Atburðarásin í Orkuveitumálinu rakin frá A til Ö

Áslaug Thelma hefur leitað til VR vegna uppsagnar sinnar sem fer nú yfir málið. Þá er hún með lögfræðinga sem sinna hennar máli. Lögfræðingur hennar sendi erindi inn á stjórnarfundinn í gær.

Þar var farið fram á að stjórn OR taki afstöðu til þess með hvaða hætti verði tekið á „marklausri uppsögn“ hennar og máli hennar sem hrundið hefur af stað röð uppsagna og því að forstjórinn, Bjarni Bjarnason,  þurfi að stíga til hliðar. Þá var kallað eftir allsherjar skoðun á mannauðsmálun og vinnustaðarmenningu undir hans stjórn.

Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur verður erindi Áslaugar formlega tekið fyrir á næsta stjórnarfundi sem er á mánudag. Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem situr í stjórn Orkuveitunnar hefur sagt í fréttum Stöðvar 2 að ef uppsögnin reynist tilhæfulaus eigi að endurráða Áslaugu Thelmu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×