Innlent

Þyrluflug og bílaumferð á Stórhöfða geta spillt mengunarrannsóknum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Árni Sigurðsson veðurfræðingur á Veðurstofunni sér um efnavöktun á vegum hennar. Það kemur honum á óvart að þyrlur fái að lenda á Stórhöfða. Íslendingar hafi skuldbundið sig á alþjóðavísu til að mæla mengun á staðnum. Myndin er af Vestmanneyjum en Stórhöfði er ekki sjáanlegur hér.
Árni Sigurðsson veðurfræðingur á Veðurstofunni sér um efnavöktun á vegum hennar. Það kemur honum á óvart að þyrlur fái að lenda á Stórhöfða. Íslendingar hafi skuldbundið sig á alþjóðavísu til að mæla mengun á staðnum. Myndin er af Vestmanneyjum en Stórhöfði er ekki sjáanlegur hér. Vísir/Pjetur
Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir mikilvægt að banna alla þyrluumferð á Stórhöfða nema í algjörum undantekningartilvikum enda svæðið gríðarlega mikilvægt þegar kemur að mengunarrannsóknum í heiminum. Þá þurfi að takmarka alla bílaumferð þar. 

Í frétt Vísis um helgina kom fram að eignarhaldsfélagið Stórhöfði- Vestmannaeyjar standi fyrir endurbyggingu á íbúðarhúsinu við Stórhöfða sem var byggt árið 1906. Þá hefur lendingarpallur verið settur upp á svæðinu þar sem þyrlur hafa lent. Nú er verið að stækka pallinn og lýkur framkvæmdunum eftir nokkrar vikur að sögn Þrastar Johnsen athafnamanns á svæðinu. 

Veðurstofan hefur frá árinu 1990 sinnt efnavöktun á Stórhöfða þar sem gróðurhúsaloftegundir og þrávirk lífræn efni eru mæld. 

Undrandi að þyrlur fái að lenda á Stórhöfða

Árni Sigurðsson veðurfræðingur á Veðurstofunni sér um efnavöktun á vegum hennar. Það kemur honum á óvart að þyrlur fái að lenda á Stórhöfða. Íslendingar hafi skuldbundið sig á alþjóðavísu til að mæla mengun á staðnum.

„Það eru í gangi alþjóðlegir samningar um takmörkun á ýmsum þrávirkum lífrænum efnum og gróðurhúsaloftegundum. Um er að ræða efni eins og DDT, PCB og mörg fleiri. Slík efni eru fituleysanleg og geta borist í lífverur. Veðurstofan hefur frá árinu 1990 séð um að mæla þessi efni á Stórhöfða í Vestmannaeyjum enda um eitt hreinasta svæði í heiminum og því afar eftirsóknarvert að vakta svæðið. Rannsóknir ganga meðal annars út á að kanna hvort að þessi efni fari minnkandi í andrúmslofti. Stórhöfði endurspeglar hvernig ástandið er í Atlandshafi. Þetta svæði ásamt svipuðum stað á Haítí er svo notað í samanburði við aðra staði í heiminum þar sem mengun mælist mun meiri,“ segir Árni.

Vill engar þyrlur og takmörkun á bílaumferð

Árni segir að helst eigi engin þyrla að lenda á svæðinu.

„Það kemur mengun frá þyrlum sem getur spillt sýnunum sem við söfnum. Það eru þungmálmar bæði í eldsneyti og útblæstri véla sem geta komið fram í sýnum okkar. Það er einnig mikilvægt að takmarka alla bílaumferð á staðnum því þeir geta spillt svæðinu á sama hátt. Það var alltaf lokað með hliði við svæðið en ég veit ekki hvernig það er núna þegar framkvæmdir eru í gangi,“ segir Árni að lokum.



Sveitarfélagið bannar þyrlum að lenda utan flugvallar

Í aðalskipulagi Vestmannaeyja fyrir 2015-2035 kemur fram á bls. 96 að hafa á samstarf við Samgöngustofu um takmörkun á umferð um loftrými Vestmannaeyja þar sem sjónarmið sveitarfélagsins er að ekki verði heimilt að lenda þyrlum utan flugvallarins vegna ferðaþjónustu.

Sigurður Smári Benónýsson skipulags- og byggingarfulltrúi kannast ekki við umsókn um lendingarpall á Stórhöfða í fyrirspurn sem fréttastofa sendi honum. 



Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×