Innlent

Þorgerður Katrín gagnrýndi Vinstri græn harðlega

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar. Vísir/Hanna

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, gerði þátttöku Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs í ríkisstjórninni að umtalsefni sínu í umræðum um stefnu forsætisráðherra. Gagnrýndi hún flokkinn harðlega fyrir að hafa gengið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.

„Á síðustu 9 mánuðum hefur það verið að skýrast betur og betur hvar þessir flokkar ná saman. Jú, þeir standa saman um kyrrstöðu og völd,“ sagði Þorgerður Katrín.

Gagnrýndi hún Vinstri græn fyrir að hafa talað um það árum saman að flokkurinn væri eini hugmyndafræðilegi og pólitíski höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins og að því hlutverki myndi flokkurinn ekki bregðast.

„Það voru því vissulega merkileg tímamót, í sögu Vinstri grænna þegar flokkurinn myndaði stjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Eftir að hafa talið bæði sjálfum sér og kjósendum sínum trú um að þau stæðu fyrir eitthvað allt annað,“ sagði Þorgerður Katrín og taldi það merkilegt að á sama tíma talaði flokkurinn fyrir því að efla traust á stjórnmálum.

Sagði Þorgerður Katrín að VG væri í raun millistykkið sem tengdi saman hina rótgrónu valdaflokka, Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn.

„Þannig er íhaldsþrennan fullkomnuð. Þrenna sem heldur hlífiskyldi yfir þeim sérhagsmunum, sem þingmenn Vinstri-Grænna hafa reyndar hér í þessum sama ræðustól gagnrýnt - allt að því froðufellandi, í gegnum tíðina,“ sagði Þorgerður Katrín.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.