Innlent

Esjunni verður lokað á morgun á meðan björgum verður rúllað niður fjallið

Birgir Olgeirsson skrifar
Göngufólki stafar ógn af stórgrýti í Esjubrúnum.
Göngufólki stafar ógn af stórgrýti í Esjubrúnum. Vísir/Egill

Skógræktarfélag Reykjavíkur ætlar að loka gönguleiðum upp Esjuna á morgun þegar fjórum björgum verður rúllað niður fjallið nærri toppi Þverfellshornsins. Munu verkfræðingar og starfsfólk Skógræktarinnar standa á stígunum og tryggja að fólk fari ekki upp fjallið á meðan þessu stendur. Lokunin mun standa yfir frá dögun og til klukkan níu um morguninn.

Vísir greindi frá því fyrr í sumar að til stæði að loka Esjunni vegna þessarar aðgerðar. Verkfræðingur hafði kannað grjót sem voru í Þverfellshorninu og var það metið svo að ekki væri óhætt að láta þau vera óhreyfð. Var talin hætta á að þau gætu farið af stað hvenær sem er og stofnað lífi útivistarfólks sem fer upp Esjuna í hættu. Áætlað er að um 100 þúsund manns fari upp Esjuna á hverju ári.

Gönguleiðin upp að Steini frá rótum Esjunnar er um 6,6 kílómetrar að lengd en Steinninn er í 597 metra hæð efst á Langahrygg. Vísir/Egill

Verkfræðingurinn hafði einnig kannað Steininn svokallaða, sem er á Þverfellshorni Esjunnar, sem er eitt vinsælasta kennileiti fjallsins. Margir setja sér það markmið að komast upp að Steini, sem er í um 597 metra hæð yfir sjávarmáli, en Steininn hefur hallað mikið undanfarin ár og voru áhyggjur um að hann myndi fara niður fjallið.

Steininn eftir að hann hafði verið festur og skiltin rétt af. Skógræktarfélag Reykjavíkur/Jón Haukur Steingrímsson

Menn á vegum Skógræktarfélags Reykjavíkur fóru upp að Steini í gær þar sem hann keðjur voru strengdar í hann og hlaðið undir hann með púkki. Um leið var merkingin á honum og skilti rétt af.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.