Innlent

Komst upp þegar millitímar bárust ekki

Andri Eysteinsson skrifar
Hlauparar í hálfu og heilu maraþoni fá tíma sína ekki staðfesta. Brautin langa var ekki nógu löng.
Hlauparar í hálfu og heilu maraþoni fá tíma sína ekki staðfesta. Brautin langa var ekki nógu löng. Vísir/Vilhelm
Þegar millitímar hlaupara í heilu og hálfu maraþoni í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 18. ágúst síðastliðinn bárust ekki, kom upp grunur um að mistök hefðu orðið við uppsetningu brautarinnar. Í ljós kom að grindur við snúningspunkt hlaupsins á Sæbraut voru ekki rétt staðsettar.

Millitímar bárust ekki

Anna Lilja Sigurðardóttir, upplýsinga- og samskiptastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur sem sér um Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka, sagði í samtali við Vísi að upp hafi komið grunur um mistökin þegar millitímar frá tímatökumottum á Sæbraut bárust ekki. Þá hafi skaðinn þó verið skeður og ekkert hægt að gera.

Að sögn Önnu höfðu starfsmenn fært grindur vegna umferðar sem kom frá Sundagörðum seinna en búist var við. Í erlinum sem fylgir hlaupi sem þessu hafi einfaldlega gleymst að færa grindurnar aftur á sinn stað.

Ákveðið var að mæla brautina í heild sinni sem er mikið verk enda brautin löng og umferð oft þung á götum sem hlaupið var um. Þeirri tímafreku vinnu lauk ekki fyrr en í dag og því fyrst nú hægt að staðfesta grun aðstandenda.

Þakklát fyrir sýndan skilning

Anna segir að aðstandendum hlaupsins hafi ekki borist kvartanir frá hlaupurum vegna þessa þvert á móti segist Anna þakklát fyrir þann skilning sem hlauparar hafa sýnt eftir að upp komst um mistökin.

Tölvupóstur var sendur á hlaupara þar sem þeim var gert grein frá málinu og hringt var í alla verðlaunahafa sem munu hafa tekið fregnunum ágætlega og hafa sýnt málinu skilning. Í tilkynningu ÍBR segir að úrslit hlaupsins muni standa en tímar munu ekki fara inn í afrekaskrá Frjálsíþróttasambands Íslands, FRÍ.

Í samtali við Fréttablaðið segir Elín Edda Sigurðardóttir, sigurvegari í hálfu maraþoni kvenna, það mjög svekkjandi að mettími hennar, sem er annar best tími sem íslensk kona hefur náð, verði ekki staðfestur í afrekaskrá FRÍ.

Arnar Pétursson, Íslandsmeistari í Maraþoni segir við sama miðil að málið sé óheppilegt en að lífið haldi áfram. Tími Arnars hafði verið besti tími Íslendings á íslenskri grundu áður en hann var dæmdur ógildur.

Fyrsta sinn í Reykjavíkurmaraþoni

Anna segir að þetta sé í fyrsta sinn sem slíkt kemur upp á í Reykjavíkurmaraþoni en mýmörg dæmi séu til um sambærileg mistök við uppsetninga annarra hlaupa jafnt erlendis sem hér á landi.

Óljóst er enn hvort stærri hlaup erlendis taki tíma þeirra,sem hugðust nota Reykjavíkurmaraþonið til að fá inngöngu í stærri hlaup, gilda.


Tengdar fréttir

Á annað hundrað þúsund manns í miðbænum

Á þriðja hundrað viðburðir eru skipulagðir í Reykjavíkurborg á Menningarnótt sem verður sett nú í hádeginu. Búist er fleiri en hundrað þúsund manns sæki miðborgina heim og segir borgarstjóri að með mikilli skipulagningu þoli innviðir borgarinnar alla þá aðsókn sem verður fram á kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×