Innlent

Tímar í Reykjavíkurmaraþoninu ógildir því brautin var of stutt

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá hlaupinu í ár
Frá hlaupinu í ár Vísir/Vilhelm
Hlaupaleið Reykjavíkurmaraþonsins var 213 metrum of stutt vegna mistaka þegar brautin var lögð. Allir tímar í hlaupinu voru því ógildir og óvíst er hvort erlend hlaup taki þá gilda sem inntökuskilyrði.

Í tilkynningu frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur kemur fram að færa þurfti grindur við snúningspunkt á Sæbraut vegna umferðar skömmu fyrir hlaupið sem fór fram 18. ágúst. Starfsmönnum láðist að færa þær aftur til baka og því varð brautin of stutt. Það hafi verið staðfest með mælingu á brautinni.

Yfirdómari hlaupsins og Dómstóll Reykjavíkurmaraþons, sem í eiga sæti fulltrúar frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur og Frjálsíþróttasambandi Íslands, hafa komist að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að úrslitin í maraþoni og hálfmaraþoni skulu standa. Þannig eru verðlaunahafar í öllum flokkum gildir verðlaunahafar í hlaupinu og í Íslandsmeistaramótinu í maraþoni.

Tímar hlaupara eru hins vegar ógildir vegna þess að brautin var of stutt og verða því ekki færðir í afrekaskrá Frjálsíþróttasambands Íslands. Þá er óvíst hvort að erlend hlaup taki tímana gilda sem inntökuskilyrði í sínar keppnir. 

Ákveðið hefur verið að fjölda eftirlitsmönnum á brautinni á næsta ári til þess að koma í veg fyrir að slík mistök endurtaki sig.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×