Innlent

Biðja fólk um að tryggja lausamuni vegna hressilegs hvassviðris

Birgir Olgeirsson skrifar
Búast má við hvassviðri í höfuðborginni.
Búast má við hvassviðri í höfuðborginni. Fréttablaðið/Eyþór
Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun vegna veðurs í kvöld og fram eftir föstudagsmorgni. Spáð er sunnan hvassviðri á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði og á miðhálendinu.

Er fólk hvatt til þess að tryggja lausamuni á borð við trampólín og garðhúsgögn og ekki mælst til þess að vera á ferð með eftirvagna á borð við hjólhýsi. Sérstaklega er varað við vindasömu veðri á Kjalarnesi í því samhengi.

Theodór Freyr Hervarsson veðurfræðingur segir ekki að ekki sé búist við óveðri, heldur hressilegum vindi þar sem meðalvindhraði getur náð 13 – 18 metrum á sekúndu þegar verst lætur og staðbundnar hviður 30 metrum á sekúndu.

„Það er meira verið að benda fólki á að þegar haustið fer að læðast að okkur þá verða lægðirnar dýpri og við erum enn í ákveðnum sumarbúningi þegar kemur að hlutunum í kringum okkur,“ segir Theodór.

Hann segir gula viðvörun ekki endilega bundna við vindstyrk, heldur þarf að taka mið af árstíð og hvað sé um að vera í þjóðfélaginu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×