Innlent

Grindhval rak á land í Grafarvogi

Atli Ísleifsson og Gissur Sigurðsson skrifa

Margir göngumenn sem leið áttu um fjöruna neðan við Hamrahverfi í Grafarvogi í gær ráku upp stór augu þegar þeir sáu nánast hvítt hræ af litlum hval og töldu að þar væri mjaldur. Það hefði mátt tíðindum sæta, en nú er komið í ljós að svo er ekki.

Eins og greint hefur verið frá stendur til að flytja tvo mjalda til Vestmannaeyja frá Kína, þegar móttökumannvirki verða tilbúin og gefst Íslendingum þá í fyrsta sinn tækifæri til að sjá mjalda við Íslandsstrendur.

En hvers kyns er nýrekni hvalurinn við Grafarvog, fyrst hann er ekki mjaldur?

Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur við Hafrannsóknastofnin, segir þetta vera hvalategund sem oftast er kölluð grindhvalur, eða marsvín öðru nafni.

„Þetta er ein algengasta hvalategundin í Norður-Atlantshafi. Mjög fræg í Færeyjum þar sem þeir hafa veitt hann í gegnum aldir og rekið á land í stórum vöðum. Hann kemur hingað á sumrin mjög reglulega og það er nokkuð algengt að við finnum þá svona í fjöru.“

Vísir/Vilhelm

En af hverju er hann svona hvítur?

„Það er væntanlega vegna rotnunar og hann er væntanlega löngu dauður. Þá eiga þeir til að missa húðlitinn eins og þessi. Hann er dökkur yfirlitum venjulega nema svolítið hvítur á kviðinn. En þetta hræ þarna er alhvítt sem hefur kannski ruglað menn í ríminu og fengið þá til að halda að þetta sé mjaldur. En þetta er alveg greinilega grindhvalur samkvæmt líkamsbyggingunni.“

Hefðu það ekki verið stór tíðindi ef þetta hefði verið mjaldur?

„Jú, mjaldur er náttúrulega tegund sem er heimskautahvalur og á sitt búsvæði í kringum ísröndina fyrir norðan okkur. Hann er við Grænland, Kanada, Síberíu og þar en að vísu sést hann einstaka sinnum, ráfar einn og einn hingað suður eftir,“ sagði Gísli víkingsson hvalasérfræðingur.

Vísir/Vilhelm


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.