Innlent

VR skorar á atvinnurekendur að gefa verslunarfólki frí á mánudaginn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Vísir/Sigtryggur
VR skorar á atvinnurekendur að gefa verslunarfólki frí á mánudaginn og „láta frídag verslunarmanna standa undir nafni,“ að því er segir í tilkynningu frá VR.

„Oft hefur fólk á orði að einkennilegt sé að eina fólkið sem raunverulega þurfi að vinna á frídegi verslunarmanna sé verslunarfólk. Þetta er að sjálfsögðu ekki að öllu leyti rétt enda margar stéttir sem að leggja sitt af mörkum til samfélagsins þennan tiltekna dag, eins og aðra daga,“ segir jafnframt í tilkynningu.

Það sé þó miður að síðustu ár hafi það færst í aukana að verslanir og þjónustufyrirtæki hafi opið á frídegi verslunarmanna.

„Það gerir það að verkum að verslunarfólk, sem þessi dagur er sérstaklega helgaður, þarf í allt of mörgum tilvikum að standa vaktina.“

VR vekur jafnframt athygli á því að samkvæmt kjarasamningum félagsins er frídagur verslunarmanna stórhátíðardagur. Á slíkum dögum er ekki vinnuskylda, nema um slíkt hafi verið samið sérstaklega milli launamanns og atvinnurekanda. 


Tengdar fréttir

Hvað gera verslunarmenn um verslunarmannahelgi?

Blaðamaður Fréttablaðsins tók sig til og hringdi í nokkra hressa verslunarmenn og forvitnaðist um hvernig helgin, sem er jú tileinkuð þeim, færi fram og hvað þeir ætluðu sér að gera yfir fyrrnefnda helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×