Innlent

Ögrar Vopnfirðingum til að hreyfa sig úti í náttúrunni

Kristján Már Unnarsson skrifar
Bjarney Guðrún Jónsdóttir, íþróttafræðingur á Vopnafirði.
Bjarney Guðrún Jónsdóttir, íþróttafræðingur á Vopnafirði. Stöð 2/Arnar Halldórsson.

Íþróttafræðingur á Vopnafirði hefur upp á sitt eigið einsdæmi hafið átak til að hvetja heimamenn og ferðamenn til aukinnar hreyfingar og útivistar í héraðinu í sumar. Fjallað var um verkefnið í fréttum Stöðvar 2. 

Bjarney Guðrún Jónsdóttir stendur á bak við átakið, sem hún kallar Ögrun í Vopnafirði, og miðar að bættri lýðheilsu. Bjarney kveðst hafa byrjað á því að búa til ratleik í fyrrasumar. Hún bjó síðan til bækling í vetur og bar hann út á hvert einasta heimili á Vopnafirði í lok maímánaðar. Í honum er bent á fjörutíu mismunandi möguleika til útivistar og samveru í héraðinu. 

„Svo bara merkir fólk við og getur skilað þessu inn í lok sumars, og farið í pott og fengið verðlaun,“ segir Bjarney. 

Í ár hefur hún sérstakt fossaþema.

„Þar er ég að hvetja Vopnfirðinga til að skoða fossa í öllum þessum vatnsföllum sem við höfum hérna út um allt, taka myndir af þeim og pósta þeim á netinu, setja myllumerki og reyna að auglýsa Vopnafjörð í leiðinni til þess að fá ferðafólkið til okkar.“

Á rölti í Búðaröxl ofan byggðarinnar á Vopnafirði. Stöð 2/Arnar Halldórsson.

En virkar þetta á Vopnfirðinga? 

„Ég hef alveg fengið góð viðbrögð og það er fólk að taka þátt. Ég svo sem veit ekki alveg hversu margir gera það, - ég er allavegana að reyna. Til þess að hvetja fólk til þess að fara, því að stundum þarftu bara svona smá.. að svona ýta á þig.“ 

En jafnframt vekur hún athygli á náttúrunni. 

„Ég er líka að reyna að benda okkur Vopnfirðingum á hvað við höfum það gott hérna. Við eigum hérna frábæru náttúru, ótrúlega fallega staði, sem sumir hérna vita kannski ekki af og eru bara hérna við bæjardyrnar hjá okkur.“

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.