Innlent

Ákærður fyrir að hafa orðið bróður sínum að bana

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi laugardaginn 31. mars.
Frá vettvangi laugardaginn 31. mars. Vísir/Magnús Hlynur
Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Val Lýðssyni, 68 ára gömlum karlmanni, fyrir manndráp.

Er Valur ákærður fyrir að hafa þann 31. mars síðastliðinn veist að bróður sínum, Ragnari Lýðssyni, með ofbeldi með þeim afleiðingum að hann lést. Var Ragnar gestkomandi hjá bróður sínum að Gýgjarhóli II í Bláskógabyggð þegar hann varð fyrir árásinni.

Í ákæru segir að Valur hafi slegið bróður sinn með ítrekuðum hnefahöggum í höfuð og líkama auk þess að sparka og/eða trampa ítrekað á höfði hans og líkama

Af þessu hlaut Ragnar dreifða áverka, til að mynda sár, rispur og blæðingar víða á líkama og höfði. Ragnar lést af banvænni innöndun magainnihalds þar sem alvarlegur höggáverki vinstra megin á enni leiddi til snöggrar breytingar á meðvitundarstigi, ógleði, svima og uppkasta.

Alls fjórir einstaklingar gera kröfur á hendur Val um greiðslu miskabóta en hver krafa hljóðar upp á tíu milljónir króna.

Valur hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan þann 31. mars og er enn í haldi. Áætlað er að aðalmeðferð fari fram í Héraðsdómi Suðurlands í lok ágúst.


Tengdar fréttir

Ummerki um ítrekaðar barsmíðar

Sterkar líkur eru á að maðurinn sem fannst látinn á Gýgjarhóli II hafi orðið fyrir miklum barsmíðum sem hafi leitt til dauða hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×