Innlent

Líkur á sól og hlýindum á vestanverðu landinu í næstu viku

Birgir Olgeirsson skrifar
Sólarinnar notið í Laugardalslaug.
Sólarinnar notið í Laugardalslaug. vísir/gva

Vonarglætu var að finna fyrir íbúa á vestanverðu landinu í hugleiðingum veðurfræðings sem birtar voru á vef Veðurstofu Íslands í morgun. Þar var greint frá því að langtímaspár gerðu ráð fyrir breytingu á veðurlagi eftir næstu helgi þar sem útlit er fyrir austlægar áttir sem gefa von um að það þorni og hlýni á vestanverðu landinu eftir mikla vætutíð.

Í þessari viku er þó von á svipuðu veðri og undanfarnar vikur, suðvestlæg átt með rigningu og öðrum leiðindum á vestanverðu landinu en bjart yfir og hlýtt á austurlandi.

Daníel Þorláksson veðurfræðingur segir í samtali við Vísi að eftir helgina séu líkur á að lægð verði suður af landinu og en þó í það mikilli fjarlægð að hún muni færa ákveðna austan átt yfir landið sem verði viðloðandi fram eftir næstu viku, gangi langtímaspáin eftir.

„Þannig að einhvern tímann á þessu tímabili í næstu viku er möguleiki á að íbúar á vestanverðu landinu fái að sjá til sólar og hitastig fari yfir 15 til 20 gráður. En þetta er ennþá það langt í burtu að ég vil ekki lofa þessu,“ segir Daníel en segir líkurnar þó meiri en minni eins og staðan er í dag.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á miðvikudag:
Sunnan 5-10, en 10-15 um landið norðvestanvert. Dálítil væta á sunnan- og vestantil, annars víða bjartviðri. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á fimmtudag:
Suðvestan 3-10 og stöku skúrir, en skýjað með köflum á Norður- og Austurlandi. Hiti breytist lítið.

Á föstudag:
Gengur í suðaustan 8-15 m/s með rigningu, en þurrt um landið norðaustanvert fram á kvöld. Hiti 10 til 22 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á laugardag og sunnudag:
Hæg suðlæg átt og væta með köflum, en úrkomulítið og hlýtt norðaustanlands.


Tengdar fréttir

Gul viðvörun enn í gildi

Gildir viðvörunin fyrir Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og Norðurlan vestra og miðhálendið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.