Innlent

Dreifðu áróðri gegn hælisleitendum í Hlíðunum

Bergþór Másson skrifar
Áróðurslímmiði á rafmagnskassa.
Áróðurslímmiði á rafmagnskassa. Twitter / Norðurvígi
Samtökin Norðurvígi dreifðu í morgun áróðri gegn hælisleitendum og innflytjendum í Hlíðunum. Í húsi í Stigahlíð dvelja sextán umsækjendur um alþjóðlegt hæli. Þeir búa þar tímabundið á meðan mál þeirra er tekið til skoðunar.

Norðurvígi beitir sér fyrir því að fólk af erlendum uppruna, að undanskildum þeim sem eru af norður-evrópskum uppruna, verði send úr landi eins fljótt og mögulegt er að því er fram kemur í stefnuyfirlýsingu samtakanna.

Áróður í Stigahlíðinni

Samtökin dreifðu límmiðum um hverfið en á þeim stóð annars vegar: „Hýsum Íslendinga en ekki hælisleitendur“ og hins vegar „Norðurvígi“.

Eins og Vísir fjallaði um á dögunum var lögregla send á vettvang vegna blóðugs manns í húsi við Stigahlíð, þar sem sextán hælisleitendur búa tímabundið á meðan þeir sækja um alþjóðlega vernd.

Á vefsíðu Norðurvígs er fjallað um þetta tímabundna búsetuúrræði hælisleitendanna, þannig það mætti gera ráð fyrir því að staðsetning áróðursdreifingar Norðurvígs sé ekki tilviljanakennd.

Samtökin talin vera möguleg hryðjuverkaógn

Meðal markmiða Norðurvígs samkvæmt vefsíðu samtakanna eru: Að senda fólk sem ekki er af norður-evrópskum uppruna til heimalanda sinna, sameina öll Norðurlöndin í sjálfbært norrænt samfélag með sameiginlegum her, taka upp herskyldu og banna fjölmiðla sem vinna gegn norrænu fólki.

Stundin fjallaði um það í dag að Ríkislögreglustjóri nefndi samtökin í skýrslu um hryðjuverkaógn.

Íslenskir Twitter notendur reiddust og fóru ófögrum orðum um samtökin þegar Norðurvígi deildi myndum af áróðursdreifingu dagsins á samfélagsmiðlinum.

Að neðan má sjá frétt Stöðvar 2 frá 19. júní þar sem fjallað var um áhyggjur íbúa í götunni.


Tengdar fréttir

Hælisleitendur fara úr Stigahlíð um áramótin

Leigusamningur um húsnæði í Stigahlíð fyrir hælisleitendur rennur út um áramótin og mun Reykjavíkurborg ekki endurnýja samninginn þar sem illa hefur gefist að búa vel um svo marga í einu húsnæði. Lögregla var kölluð til í nótt þegar íbúi leitaði blóðugur til nágranna eftir hjálp vegna átaka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×