Erlent

Fannst eftir 35 ár

Andri Eysteinsson skrifar
Hughes leiddist veran í flughernum og ákvað að láta sig hverfa sumarið 1983.
Hughes leiddist veran í flughernum og ákvað að láta sig hverfa sumarið 1983. Vísir/EPA
Hátt settur radarsérfræðingur í flugher Bandaríkjanna fannst í vikunni, 35 árum eftir að hann lét sig hverfa. 

Rannsóknardeild bandaríska flughersins greindi frá þessu í tilkynningu í vikunni. Maðurinn, William Howard Hughes yngri, hafði síðast sést þegar hann tók út 28.000 bandaríkjadali í borginni Albuquerque sumarið 1983.

Þá hafði hann nýlega snúið aftur eftir tveggja vikna frí í Evrópu en hann hafði verið við störf í Hollandi. Hughes var 33 ára ókvæntur og barnlaus þegar hann lét sig hverfa.

Upp komst um Hughes þegar grunsemdir komu upp um fölsk skilríki sem hann hafði notað í áraraðir. Við yfirheyrslur sagði Hughes að honum hefði leiðst lífið í flughernum og hefði ákveðið að láta sig hverfa. Hann kom sér upp fölsku nafni og hefur búið í Kaliforníu síðan að hann lét sig hverfa.

Hughes hefur verið kærður fyrir brotthlaup og er í haldi í Travis flugstöðinni í Kaliforníufylki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×