Innlent

Pattstaða um myndun meirihluta í Kópavogi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Vísir
Óeining meðal bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi hefur gert það að verkum að pattstaða er komin upp sem tefur fyrir myndun meirihluta í bænum. Enn hefur ekki verið boðað til formlegra viðræðna í Kópavogi. 

Fram hefur komið í fjölmiðlum að þremur bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins, þeim Margréti Friðriksdóttur, Karen Elísabetu Halldórsdóttur og Guðmundi Gísla Geirdal, hugnist ekki að mynda meirihluta með BF Viðreisn. Það hafi komið mörgum í opna skjöldu, meðal annars bæjarstjóranum Ármanni Kr. Ólafssyni, samkvæmt heimildum fréttastofu. Bæjarfulltrúar flokksins hafa ýmist ekki viljað tjá sig við fjölmiðla eða ekki hefur í þá náðst.

Ragnheiður Dagsdóttir, formaður stjórnar fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, segir ráðið hafa fundað með bæjarfulltrúum á þriðjudag. Fulltrúaráðið hvetji fulltrúa flokksins, sem er langstærsti flokkurinn í bæjarstjórn Kópavogs, til að hefja meirihlutaviðræður hið fyrsta. „Við leggjum mikla áherslu á það að bæjarfulltrúarnir vinni þétt saman og þeir vinni markvisst að því að mynda nýjan meirihluta og þeim skilaboðum hefur að sjálfsögðu verið komið til oddvita og bæjarfulltrúa,” sagði Ragnheiður í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag.

„Við höfum rætt þetta mjög breytt, við höfum rætt landslagið heilt yfir og stjórn fulltrúaráðsins hefur ekki ályktað til bæjarfulltrúa um neinn ákveðinn flokk,” segir Ragnheiður, spurð hvort fulltrúaráðinu hugnist að flokkurinn leiti til annarra flokka en BF Viðreisnar um myndun meirihluta.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er nokkur titringur innan Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi vegna afstöðu bæjarfulltrúanna þriggja sem vilja ekki fara í meirihlutasamstarf með BF Viðreisn. Aðspurð kveðst Ragnheiður ekki vita hvaða ástæður liggja þar að baki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×