Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin og Vinstri græn mynda meirihluta í Borgarbyggð

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Samstarf Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna leggst mjög vel fulltrúana.
Samstarf Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna leggst mjög vel fulltrúana. Vísir/Pjetur
Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin og Vinstri græn hafa gengið frá samkomulagi um að mynda nýjan meirihluta í Borgarbyggð. Er búist við því að samningurinn verði undirritaður strax eftir helgi. Samstaða er um að semja um áframhaldandi samstarf við Gunnlaug Júlíusson núverandi sveitarstjóra. Lilja Björg Ágústsdóttir Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð staðfestir þetta í samtali við Vísi.

„Þetta verður lagt undir fulltrúana og baklandið í dag,“ segir Lilja Björg. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin voru í meirihluta á síðasta kjörtímabili og hélt ekki eftir kosningarnar um síðustu helgi. Níu eru í bæjarstjórn og Framsóknarflokkurinn fékk fjóra fulltrúa, Sjálfstæðisflokkurinn tvo, Vinstri græn tvo og Samfylkingin einn. Saman eru flokkarnir því með fimm fulltrúa meirihluta.

Lilja Björg Ágústsdóttir Oddviti Sjálfstæðisflokksins í BorgarbyggðAðsent

Spennandi kostur

„Það er búið að funda svolítið stíft og þetta hefur verið í svona fínpússum síðustu daga,“ segir Lilja Björg.

„Þetta gekk bara mjög vel og þetta samstarf leggst mjög vel í okkur. Við náum vel saman. Sjálfstæðisflokkur og Samfylking voru í síðasta meirihluta og við höfum unnið náið með þeim sem eru efst í VG líka í gegnum fræðslunefndina og svona þannig að þetta lítur bara vel út. Það kom ekki upp neitt stórt ágreiningsmál.“

Lilja Björg segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi átt frumkvæði að þessum meirihlutaviðræðum.

„Um leið og úrslit kosninganna lágu fyrir þá hringdi ég í þessa aðila, Vinstri græna og Samfylkinguna.“

Hún segir að þetta hafi verið þeirra fyrsti kostur, Sjálfstæðisflokkurinn hafi viljað halda áfram samstarfinu við Samfylkinguna.

„Við buðum VG að vera með, þau unnu mikið á í kosningabaráttunni og okkur fannst þetta spennandi kostur og treystum fólkinu.“

Lilja Björg vildi ekki gefa frekari upplýsingar um málefnasamninginn fyrr en baklandið hafi farið yfir hann í kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×