Innlent

Viðræður fara vel af stað í Kópavogi

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Að sögn Birkis Jóns Jónssonar, oddvita Framsóknarflokksins í Kópavogi, eru skólamálin og málefni eldri borgara og barnafólks leiðarljósið sem Framsókn tekur með sér inn í Viðræðurnar við Sjálfstæðisflokk.
Að sögn Birkis Jóns Jónssonar, oddvita Framsóknarflokksins í Kópavogi, eru skólamálin og málefni eldri borgara og barnafólks leiðarljósið sem Framsókn tekur með sér inn í Viðræðurnar við Sjálfstæðisflokk. Samsett mynd; Vísir/vilhelm

Birkir Jón Jónsson, oddviti Framsóknarflokksins, segir formlegar viðræður Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar fara vel af stað.

Í gær tilkynntu flokkarnir að þeir hygðust hefja formlegar viðræður um myndun meirihluta í Kópavogi en ákveðin pattstaða var uppi eftir sveitarstjórnarkosningar því ágreiningur kom upp á milli bæjarfulltrúa hjá samstarfsflokkum síðasta kjörtímabils, Sjálfstæðisflokki og BF Viðreisn. Þrír bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýstu yfir efasemdum um áframhaldandi meirihlutasamstarfi með BF Viðreisn en það var þvert á sjónarmið Ármanns Kr. Ólafssonar, flokksleiðtoga Sjálfstæðismanna, sem taldi réttast að láta reyna á áframhaldandi meirihlutasamstarf.

Sjá nánar: Segist hafa fengið uppsagnarbréf frá Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi

Í samtali við Vísi segir Birkir Jón að vinnan sé á byrjunarstigi. Í gærkvöldi hefðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks rætt um áherslur flokkanna og verður þeirri vinnu haldið áfram í dag.

Spurður hvar bæjarfulltrúarnir hafi haldið fundinn bendir Birkir Jón á hið augljósa og svarar: „Í Kópavogi,“ og skellir upp úr en bætir við að þeir hefðu ræðst við í Hlíðasmára.

Fulltrúar flokkanna hafa ekki sett sér nein tímamörk: „Við höfum ekki gert það, aðalatriðið er að vera á sömu blaðsíðunni hvað áherslumálin varðar en áherslur og stefna flokkanna fer að mörgu leyti vel saman og við ætlum að gefa okkur góðan tíma til þess að ljúka þeirri vinnu.“

Að sögn Birkis Jóns eru skólamálin og málefni eldri borgara og barnafólks leiðarljósið sem Framsókn tekur með sér inn í Viðræðurnar við Sjálfstæðisflokk. Hann segir að eflaust séu nokkur mál sem Framsókn hvikar ekki frá en að samtalið sé ekki komið á þann stað.

Þrátt fyrir að viðræðurnar séu skammt á veg komnar, ertu bjartsýnn á að þið náið saman?

„Já, það er góður andi og samhljómur á milli flokkanna í áherslum þannig að ég er bjartsýnn.“

Framsóknarflokkurinn hlaut 8,2% atkvæða en Birkir Jón Jónsson komst einn frambjóðenda Framsóknar inn í bæjarstjórn Kópavogs. Sjálfstæðisflokkurinn með Ármann Kr. Ólafsson, oddvita Sjálfstæðisflokksins og bæjarstjóra Kópavogs, í broddi fylkingar hlaut 36,1% atkvæða og fékk 5 menn kjörna.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.