Innlent

Bretar senda orrustuþotur til landsins

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Um er að ræða fjórar Typhoon-orrustuþotur.
Um er að ræða fjórar Typhoon-orrustuþotur. Landhelgisgæslan
Bresk stjórnvöld munu senda orrustuþotur til Íslands á næsta ári - í fyrsta skipti síðan Bretar settu hryðjuverkalög á Íslendinga eftir fall bankakerfisins haustið 2008.

Varnamálaráðherra Bretlands, Gavin Williamsson, tilkynnti í gær að fjórar Eurofighter Typhoon orrustuþotur á vegum breska flughersins (RAF) yrðu sendar hingað til lands í tengslum við NATO-skuldbindingar Breta vegna loftrýmisgæslu.

Á fundi sínum með varnarmálaráðherrum NATO-ríkjanna í Brussel í gær sagði Williamson að vélarnar myndu auka flugöryggi í Norður-Evrópu - þær væru þannig „reiðubúnar til að skjóta niður óvinveittar vélar,“ eins og hann orðaði það.

Þetta verður í fyrsta sinn í um 11 ár sem breskar herþotur taka þátt í loftrýmisgæslu hér á landi. Eftir bankahrunið 2008, þegar tap margra breskra innistæðueigendenda leiddi til milliríkjadeilu, var ákveðið að blása af reglulega viðveru breska hersins á Íslandi.

NATO-ríki skiptast á að senda herþotur hingað til lands til loftrýmisgæslu. Alla jafna senda ríki fjórar þotur í hvert skipti en fjöldi þeirra er þó breytilegur. Ríki á borð við Kanada, Tékkland, Danmörku, Frakkland, Þýskaland, Ítalíu, Noreg, Portúgal og Bandaríkin hafa sinnt lofrýmisgæslu hér á landi á undanförnum árum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×