Erlent

Lögreglan í París handtók 200 óeirðaseggi

Sigurgeir Ingi Þorkelsson Eyvinds skrifar
Grímuklæddir óeirðaseggir ollu óskunda í París.
Grímuklæddir óeirðaseggir ollu óskunda í París. Vísir/AFP
Um 1200 grímuklæddir mótmælendur settu mótmælagöngur á verkalýðsdaginn í uppnám í París. Mótmælendurnir tilheyra öfgavinstrihópi anarkista.

Lögreglan í París hefur handtekið tæplega 200 manns sem höfðu unnið skemmdarverk á búðum og kveikt í bílum. Nota þurfti þrýstivatnsslöngur og táragas til að dreifa hópnum.

Talsmaður ríkisstjórnarinnar, Benjamin Griveaux, gagnrýndi framferði mótmælendanna. „Þegar þú stendur heilshugar með málstað þínum þá mótmælir þú ekki með hulið andlit. Þeir sem hylja andlit sitt eru óvinir lýðræðisins.“

Margir þeirra sem gengu á degi verkalýðsins í Frakklandi í dag mótmæltu endurbótum Macron Frakklandsforseta á starfskjörum opinberra starfsmanna.

Starfsmenn hins opinbera lestarfyrirtækisins Frakklands hafa þegar boðað verkfallsaðgerðir sem munu ná yfir þrjá mánuði. Forsetinn er hins vegar hvergi banginn og ætlar að halda ótrauður áfram með áform sín um endurbætur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×