Innlent

Sindri Þór laus úr haldi lögreglu en kominn í farbann

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sindri Þór Stefánsson var í Héraðsdómi Reykjaness síðdegis úrskurðaður í farbann til fjögurra vikna, eða til 1. júní. Þetta segir Þorgils Þorgilsson, verjandi Sindra Þórs, í samtali við Vísi.

Lögregla fór fram á farbann yfir Sindra en Þorgils segir lögreglu ekki hafa getað farið fram á gæsluvarðhald enda hafi ekki verið gefin út ákæra í málinu. Tólf vikna fresturinn til að halda manni í varðhaldi án útgefinnar ákæru sé liðinn.

Sindri Þór er því frjáls ferða sinna hér á landi en mun þurfa að sinna tilkynningarskyldu til lögreglu. Hvernig að tilkynningarskyldunni verður staðið er samkomulag við lögreglu að sögn Þorgils.

„Ég held að allir séu bara glaðir í dag,“ segir Þorgils en hann hafði tjáð Vísi fyrr í vikunni að farbann væri farsælasta lausnin í málinu.

Sindri gekk því út úr Héraðsdómi Reykjaness rétt fyrir klukkan sex en þangað sótti hann einhver nákominn.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.