Erlent

Google bannar allar auglýsingar fyrir þjóðaratkvæði um fóstureyðingar

Kjartan Kjartansson skrifar
Auglýsingar sem Google selur birtast á milljónum vefsíðna og á Youtube.
Auglýsingar sem Google selur birtast á milljónum vefsíðna og á Youtube. Vísir/AFP
Tæknirisinn Google ætlar að leggja blátt bann við auglýsingum sem tengjast þjóðaratkvæðagreiðslu um fóstureyðingar á Írlandi sem fara fram síðar í þessum mánuði. Facebook sagðist í gær ekki ætla að taka við auglýsingum sem tengjast atkvæðagreiðslunni frá erlendum aðilum.

Greidd verða atkvæði um hvort afnema eigi ákvæði í stjórnarskrá Írlands sem leggur bann við fóstureyðingum 25. maí. Töluvert hefur borið á misvísandi áróðri í tengslum við atkvæðagreiðsluna. Bandarískir hópar sem eru andsnúnir fóstureyðingum hafa meðal annars beitt sér til að hafa áhrif á atkvæðagreiðsluna.

Í yfirlýsingu í dag segir Google að það ætli að stöðva auglýsingar sem tengjast atkvæðagreiðslunni frá og með morgundeginum. Auglýsingar frá Google birtast á milljónum vefsíðna, þar á meðal á myndbandasíðunni Youtube, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Tæknifyrirtæki og samfélagsmiðlar hafa verið undir þrýstingi til að bregðast við eftir að misvísandi áróðri var beitt til að hafa áhrif á nýlegar kosningar eins og bandarísku forsetakosningarnar árið 2016. Þá kom nýlega í ljós að breska ráðgjafarfyrirtækið Cambridge Analytica komst yfir persónuupplýsingar um milljónir Facebook-notenda sem það notaði til að sérsníða auglýsingar að einstökum markhópum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×