Lífið

Ætlar að vera í bransanum þar til að hann deyr

Stefán Árni Pálsson skrifar
Helgi Björnsson er einn vinsælasti söngvari landsins.
Helgi Björnsson er einn vinsælasti söngvari landsins.

„Ég er búinn að vera í bransanum í 35 ár,“ segir söngvarinn Helgi Björnsson sem stendur fyrir afmælistónleikum í Laugardagshöllinni í haust. Hann var í ítarlegu viðtali á X-977 hjá þeim Harmageddon-bræðrum í morgun.

Helgi verður 60 ára þann 10. júlí næstkomandi og af því tilefni ætlar þessi ástsæli söngvari að blása til stórtónleika í 8. september. Miðasala á tónleikana hefst á morgun á tix.is.

„Það eru forréttindi að fá að starfa við það sem maður hefur ástríðu fyrir og elskar,“ segir Helgi sem hefur lítið unnið svokallaða venjulega vinnu.

„Ég tók eitt kjörtímabil með strákunum á Skjá Einum og var markaðsstjóri þar í fjögur ár. Annars hef ég bara verið listamaður og tekið að mér hitt og þetta. Til að byrja með lék ég mikið á sviði. Svo tók ég mér hlé frá því þar sem hljómsveitin var farin að taka of mikið pláss og við ætluðum að verða heimsfrægir og svona. Þá einbeitti ég mér bara að rokkinu og svo meðfram voru það sjónvarpsmyndir og eitt og annað.“

Helgi segist ekki enn upplifa sig eins og hann hafi meikað það.

„Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að fólk hafi gaman af því sem ég er að gera en mér finnst eins og ég þurfi hársbreidd í viðbót til að meika það almennilega. Þetta hefur allt saman liðið rosalega hratt. Þegar það er gaman þá líður lífið mjög hratt,“ segir Helgi en hann mun gefa út nýja plötu í ágúst.

En hvað ætlar Helgi að vera lengi að sem tónlistarmaður?

„Ég ætla verið í þessu þangað til ég er dauður, þetta er svo gaman. Músíkin er ljúfust lista í heimi hér, “ segir Helgi og bætir því við að tónleikarnir í Laugardalshöllinni verða hans allra flottustu.

„Við ætlum að gera alvöru show. Við ætlum að smíða nýtt svið á nokkrum hæðum og þarna verða risaskjáir og öllu til tjaldað. Ég ætla reyna að stikla á stóru á mínum ferli og koma við.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.