Innlent

Óvissa ríkir um starfsemi Hugarafls

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Óvissa ríkir um starfsemi Hugarafls en útlit er fyrir að fyrir að styrkir frá félagsmálaráðuneytinu skerðist um 2,5 milljónir til samtakanna á þessu ári.

Þá er óljóst um húsnæðismál en Hugarafl starfar í húsnæði Geðheilsumiðstöðvarinnar sem ákveðið hefur verið að leggja niður.

Unghugar er hópur ungs fólks innan Hugarafls og kynnti hópurinn starfsemina í Hinu húsinu í dag ásamt nemendum í viðburða- og verkefnastjórnun í Háskóla íslands. Formaður hópsins hefur miklar áhyggjur af stöðunni.

„Ég trúi ekki öðru en að þetta sé skilningsleysi á hversu mikilvæg þessi starfsemi er. Við erum að skila fólki aftur á vinnumarkað, aftur í skóla. Þetta er sá staður á landinu þar sem er verið að koma í veg fyrir varanlega örorku og margt marg fleira. Mér finnst mjög skrýtið að þetta sé að gerast,“ segir Fanney Björk Ingólfsdóttir, formaður Unghuga.

Ungur maður sem nýtti sér þjónustu Hugarafls segir stöðuna grafalvarlega.

„Mér finnst þetta skelfilegt af mörgum ástæðum en kannski einna helst af því að þetta er að svo miklu leyti einstakt,“ segir Magnús Friðrik Guðrúnarson, einn af Unghugunum.

Magnús þakkar starfseminni í Hugarafli að mestu leiti fyrir að hann útskrifaðist úr menntaskóla og fékk draumastarfið í kjölfarið.

„Það tók mig níu ár og sex skóla að klára loksins sem ég gerði í fyrra mikið þökk sé Hugaraflim verð ég að segja. Það var staður sem ég gat komið til að læra, staður sem ég gat haft annað að gera en að fara bara heim í tölvuna,“ segir Magnús.

Unghugar boða til aðgerða vegna málsins á næstunni en á þriðjudaginn ætlar hópurinn að vera með þögul mótmæli fyrir utan velferðarráðuneytið.


Tengdar fréttir

Enn vegið að Hugarafli sem missir húsnæðið

Það hefur alvarlegar afleiðingar fyrir starfsemi Hugarafls að leggja niður teymi Geðheilsu – eftirfylgdar. Samtökin munu missa húsnæði sitt í sumar. Stjórn Hugarafls fundar í dag um næstu skref í baráttunni fyrir tilvist samtakanna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×